Húsafell

Húsafell Bistró: 435-1550

restaurant@hotelhusafell.is
Hótel Húsafell: 435-1551

booking@hotelhusafell.is

Sundl./swimming pool:

435-1552

Tjaldsvæði/camping:

435-1556

camping@husafell.is

 

Bergþór Kristleifsson

husafell@husafell.is


 

Páll Guðmundsson

Listamaður frá Húsafelli

Páll Guðmundsson er fæddur og uppalinn á Húsafelli. Hann gekk í barnaskóla á Kleppjárnsreykjum og Hagaskóla í Reykjavík. Hann stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1977-1981 og fór síðar í Listaháskólann í Köln í Vestur-Þýskalandi, þar sem hann lærði Höggmyndalist hjá prófessor Burgeff.  Hann kom aftur í Borgarfjörðinn eftir námið í Myndlista- og handíðaskólanum, og var kennari við Grunnskólann í Borgarnesi í þrjá vetur, þar sem hann kenndi teikningu og hafði vinnustofu í gamla Kaupfélagshúsinu.  Eftir námsárið í Þýskalandi fór hann heim að Húsafelli og hefur verið þar við vinnu síðan.  Þar vinnur Páll  að listinni, hann heggur og málar í grjót sem hann finnur í landi Húsafells.

Páll segir að hann sjái myndir í steinunum og að hann þurfi oft ekki að gera mikið til að gera myndirnar sýnilegar öðrum. Þetta geta verið tröll, vættir, huldufólk, dýr og menn sem þannig leynast og hann laðar fram. Hann gerir bæði bergþrykk og svellþrykk auk þess að kljúfa steina í sundur til að finna leyndar myndir inni í þeim.  Þá steina kallar hann samlokur en þær geta verið af öllum stærðum.  Páll notar eingöngu handverkfæri við vinnu sína og náttúruleg liti, oftast liti úr steinunum sjálfum.

Páll hefur þróað tækni sem hann kallar bergþrykk og svellþrykk,  Bergþrykkið er þannig að hann pússar  steininn með sandpappír, bleytir pappírinn og leggur ofan á síðan þurrkað með hárþurrku til að halda forminu, sólin þurrkar einning vel en er ekki alltaf til staðar.  Svellþrykkið er máluð grunnmynd á svell (úti) með olíumálningu þrykkt með pappír og útkoman er afar sérstakt mynstur .

Áhuginn á listinni  hefur lengi verið til staðar.  Þegar Páll var barn sá hann myndir í steinunum og um 12 ára aldur var hann farinn að mála olíuverk. Þá voru margir listamenn í Húsafelli m.a. Pétur Friðrik og Veturliði Gunnarsson og fékk hann að fara með þeim út í skóg að mála.  Páll þótti snemma drátthagur, en fór ekki að fá 10 í teikningu fyrr en í Hagaskóla.  Hann segir fjölskylduna hafa sýnt sér bæði skilning og stuðning í listsköpuninni.  Það eru ekki margir sem lifa eingöngu af listinni en það gerir Páll. „ Já ef maður er bæði nægjusamur og reglusamur er það hægt. Og ég er  hvort tveggja enda skipta peningar mig engu máli.“  Tíminn skiptir Pál ekki heldur máli, hann gengur aldrei með klukku en segir listina vera mikla vinnu. Hann er alltaf að og æfir sig þess á milli á steinhörpuna. 

Listaverk eftir Pál við Kaldárbotna

 „Ég vil ekki segja að ég hafi fundið steinhörpuna upp því menn hafa jú alltaf leikið sér að því að spila á steina“  Það eru miklir tónar í steinunum, þetta eru líparíthellur. Steinharpan nær yfir fjórar áttundir og er leikið á hana með kjuðum.  Áskell Másson samdi tónverk sem heitir Steinabragur og var frumflutt við opnun sýningarinnar  „Fjöll rímar við tröll“ í Ásmundarsafni og var það samsýning með Ásmundi Sveinssyni árið 2001.  Eftir þessa sýningu komu þeir Hilmar Örn Hilmarsson og Jónsi í Sigur Rós að máli við Pál en þeir höfðu fengið sömu hugmynd að nota steinhörpuna  í Hrafnagaldur Óðins og það varð úr.  Páll hefur farið með steinhörpuna og spilað ásamt fleirum í Barbíkanininu í London, í Þrándheimi í Noregi, í Grandhall í París og á Listahátíð.  Sinfóníuhljómsveitir á hverjum stað hafa leikið með.  Páll og félagar hafa verið tilnefndir til Menningarverðlauna Norðurlanda tvisvar og fengu menningarverðlaun DV 2003.

Páll fékk menningarverðlaun DV fyrir sýningu í Surtshelli sem hann hélt árið 1995.  Sú sýning var af mörgum talin ein sérstæðasta listsýning áratugarins. „ Ég vann út frá Hellismannsögu um útilegumennina og tvær vinnukonur frá Kalmanstungu sem struku til þeirra.  Þetta eru höggmyndir og á sýningunni söng Sverrir Guðjónsson kontratenór en hann var klæddur eins og munkur.  Sýnt var við kertaljós í íshellinum þar sem ís var á gólfinu, vatn yfir og allt speglaðist í vatninu.  Þarna komu 1000 manns og merkilegt var að enginn datt á svellinu eða meiddist“ Sýningin var algerlega unnin fyrir listina og Páll setti hana upp einsamall. Á boðstólum voru súrmatur og grasamjólk úr grösum sem Páll tíndi sjálfur en mjólkursamlagið gaf honum 100 l af mjólk.  Í Heimildarmynd sem verið er að vinna um Sigur Rós er spilað á steinhörpuna í Surtshelli og eru þar og leifar af sýningu Páls frá árinu 1995.

Undanfarin ár hefur Páll unnið að stórum minnisvörðum víða um land.  M.a. í Ólafsfirði, í Skálholti, á Hellissandi, í Vestmannaeyjum og Reykjavík svo eitthvað sé nefnt.  Í Veitingasal í Þjónustumiðstöðinni á Húsafelli eru verk Páls sýnd einning á Kolsstöðum í Hvítársíðu.

Helstu einkasýningar Páls.

1981: Borgarnes./ Landspítalinn í Reykjavík. / Mötuneyti Flugleiða./ Loftleiðir í Reykjavík.

1983: Kleppjársreykir í Borgarfirði.

1984: Landspítalinn í Reykjavík.

1985: Kjarvalsstaðir í Reykjavík. / Tvær sýningar í Þýskalandi.

1988: Gallerý Grjót.

1989: Nýhöfn, Reykjavík.

1992: Hafnarborg Hafnarfirði./Stöðlakot, Reykjavík./ Mokkakaffi Reykjavík.

1993: Munaðarnes í Borgarfirði.

1995: Surtshellir./ Akranes

1996: Vættatal, Listas. Sigurjóns Ólafssonar á Listahátíð í Reykjavík.

1997: Gallerý Sævars Karls í Reykjavík.

2006: Fólkið í sveitinni. Safnahús Borgarfjarðar.

Samsýningar.

1998: Hallgrímskirkja í Reykjavík (samsýning Heilagur Þorlákur)

2001: Átthagatónar, samsýning með Thor Vilhjálmssyni í Finnsstofu í Reykholti.

1981: Samsýning ungra myndlistarmanna, Kjarvalsstöðum.

1988: Sophienholm í Danmörku.

1993: London

1994: Quarqortoq á Grænlandi.

1999: Hraun og menn, Vestmannaeyjum.

2000: Turnleikar og umbergis, samsýning með Thor Vilhjálmssyni, Gallerý Reykjavík.

 

 Fara á heimasíðu Páls