Húsafell

Húsafell Bistró: 435-1550

restaurant@hotelhusafell.is
Hótel Húsafell: 435-1551

booking@hotelhusafell.is

Sundl./swimming pool:

435-1552

Tjaldsvæði/camping:

435-1556

camping@husafell.is

 

Bergþór Kristleifsson

husafell@husafell.is


 

 Gönguleiðir á Húsafelli

HÚSAFELL MÁ KALLA DRAUMALAND GÖNGUMANNSINS: Allt um kring eru heillandi gönguleiðir, þar sem alltaf ber eitthvað nýtt fyrir augu. Þéttir skógar, hraunmyndanir, kristaltærar uppsprettur, stórbrotin gil, jöklar, hvítfyssandi jökulár, fjölbreytt dýra- og fuglalíf auk merkra fornminja og annarra mannvistarleifa, sem segja ótal sögur um liðna tíð og sambýli manns og náttúru. Einnig gengur ferðalangurinn víða fram á sérkennilegar höggmyndir Páls Guðmundssonar myndhöggvara, sem skerpa oft svip landsins á nærgætinn hátt við náttúruna. Hægt er að finna auðveldar gönguleiðir fyrir alla fjölskylduna, eins og leiðirnar um skóginn og einnig eru áhugaverðar leiðir fyrir þá brattgengu. Þar má nefna há fjöll eins og Eiríksjökul og Ok. Hestamenn og hjólreiðamenn finna líka spennandi leiðir fyrir sig.

 

Hér að neðan eru tvær teikningar sem sýna helstu gönguleiðirnar auk þess sem annarra er getið. Efri myndin sýnir gönguleiðir norðan Kaldár en sú neðri sýnir leiðir sunnan árinnar. Leiðirnar eru tölusettar og merktar, eftir því hversu erfiðar þær eru:

GUL LEIÐ: Auðveld leið sem allir ættu að geta gengið.

GRÆN LEIÐ: Erfiðari ganga. Munið eftir því að vera vel klædd og hafið með ykkur nesti.

BLÁ LEIÐ: Skemmtileg en krefjandi leið fyrir vana göngumenn. Hér þarf að taka með sér

áttavita og kort, auk annars búnaðar fyrir erfiðari göngur. Reiðleiðir eru sérmerktar sem

BRÚNAR LÍNUR.

Við viljum benda gestum svæðisins á að ganga varlega um náttúruna og hreyfa ekki við viðkvæmum hleðslum forna mannvirkja

 

Kort af gönguleiðum norðan Kaldár

 

1 ODDAR: Gengið er eftir skógargötum sem liggja vestur úr sumarhúsabyggðinni. Oddar eru gríðarmiklar kalda-vermslislindir með skógarhólmum og fjölbreyttu fuglalífi. Þaðan er stutt ganga upp með ánni að ármótum Norðlinga-fljóts og Hvítár. Þar er sérkennilegt að sjá hvernig tært Norðlingafljótið blandast við jökullitaða Hvítánna. Skammt fyrir neðan ármótin er Hundavaðsfoss í Hvítá. Loks er haldið til suð-austurs eftir söndunum að slóða sem liggur að sumarhúsabyggðinni. Það tekur um eina og hálfa klukkustund að ganga þessa leið í rólegheitum.

 

2 KALDÁRBOTNAR: Gengið er upp með Kaldá að norðanverðu, leiðin er stutt og endar við gullfallegar uppsprettur í skógarjaðrinum, þar sem alltaf má upplifa fegurð náttúrunnar á þessum friðsæla og rómantíska stað.

 

Kort af gönguleiðum sunnan Kaldár

 

 

3 OK: Jökullinn hvílir á 1170 m hárri grágrýtisdyngju og er einn minnsti jökull landsins. Best er að ganga upp með Bæjargili að vestanverðu en efst í Bæjargili er Drangsteinabrún, sem er með sérkennilegu stuðlabergi. Skammt suður af Drangsteinabrún eru litlar tjarnir og er farið austan við þær og þaðan beint á há Okið. Ætla verður fimm til sex tíma í gönguna.

 

4 SELGIL: Selgil er gilið á milli Selfjalls og Bæjarfells. Þvert á Selgil er Teitsgil en þar eru heitar laugar og borhola, sem nýtt er fyrir Húsafellssvæðið. Þar var áður þvottalaug og sér vel móta fyrir henni. Á bakaleið er gott að ganga upp hvamminn norðan við borholuna og þaðan upp á Selfjall og njóta útsýnis til vesturs. Af Selfjalli liggur gata að Húsafelli. Falleg þriggja tíma gönguleið fram og til baka.

 

5 DEILDARGIL OG HRINGSGIL: Óhætt er að segja að hingað til hafi Deildargil og Hringsgil verið nokkurs konar leynistaðir í Húsafellslandi. En þar má finna heillandi gönguleiðir í stórbrotnu umhverfi. Best er að hefja gönguna frá tjaldstæðunum í Reyðarfellsskógi og ganga þar upp með skógi vöxnum lækjarbökkum. Á köflum rennur lækurinn í djúpu klettagljúfri. Þegar komið er upp fyrir skógarmörkin, skal halda til vesturs að Deildargili. Ofarlega í gilinu fellur mikill foss sem er kallaður Langifoss. Þaðan er auðveldast að fylgja ánni niður að þjóðvegi.

 

6 HLÍÐARENDI: Skemmtilegt er að ganga fram á Hlíðarenda en þá er farin gatan sem liggur inn að Selgili og þaðan upp skógargötuna fram með hlíð, sem heitir Þrengsli. Á Hlíðarenda var býli sem fór í eyði vegna gestanauðar. Þessa leið er ekki síður skemmtilegt að fara á veturna á gönguskíðum.

 

7 BÆJARFELL: Auðvelt er að ganga á Bæjarfell en þá er gengið upp með Bæjargili austanverðu og þaðan upp á háfellið. Þaðan er fagurt útsýni og á góðviðrisdögum sést Snæfellsjökull í vestri. Hægt er að komast yfir Bæjargil á milli fossa á móts við Drangsteinabrún, en þá er gengið niður með Bæjargili að vestanverðu.

 

8 STRÚTUR: Ganga á Strút (938 m) er auðveld og hættulaus en nokkuð löng. Best er að hefja gönguna af hálsinum norðan við Kalmanstungu og fylgja vegarslóða sem liggur upp á fjallið. Af Strút er mikið útsýni yfir Arnarvatnsheiði, Borgarfjörð, Húnavatnssýslur og Strandafjöll. Í Strúti, norðaustanverðum, er áhugavert gil sem nefnt er Draugagil, en sagt er að Snorri á Húsafelli hafi varpað 81 draugi í gilið.